Þegar við Íslendingar tökumst á um málefni þá lendum við ótrúlega oft í átökum um afmarkaða kima og við gleymum að horfa á stóru myndina. Stóra myndin í þessu samhengi er hvernig sköpum við nægileg verðmæti til þess að standa undir velferð okkar.
Í umræðum um sjávarútveg og veiðar hættir okkur til að rífast um það hverjir fá að veiða þá sporða sem í boði eru hvert fiskveiðiár. Í stað þess að velta fyrir okkur hvort við séum að hámarka það verðmæti sem sjórinn gefur ár hvert.
Þór Sigfússon og hans fólk í Sjávarklasanum hefur verið algjörlega óþreytandi ýta undir og benda á nýjar leiðir til þess að auka það verðmæti sem hver fiskur gefur. Auk þess sem að mikil nýsköpun hefur verið unnin í faðmi Sjávarklasans.
Við Íslendingar höfum verið framarlega á heimsvísu þegar kemur að nýtingu þess afla sem dregin er að landi. Smátt og smátt verður til aukin þekking um allt land. Líkt og sú þekking sem skapast hefur í Grindavík. En þar hefur ýmsum aðferðum verið beitt til þess að fullnýta hliðarafurðir líkt og roð, slóg og fleira. Grindvíkingar hafa látið hafa eftir sér að nú sé staðan þannig að roðið sé orðið verðmætara en fiskholdið sjálft. Þetta eru verulega góðar fréttir ef þorskurinn er farin að tvöfalda virði sitt og rúmlega það, vegna íslenskra frumkvöðla og nýsköpunar af þeirra hálfu.
Það er auðvita ekki hægt að taka þessa umræðu nema nefna Guðmund Fertram og hans fólk hjá Kerecis á Ísafirði. Þar er verið að nýta roð úr nærumhverfinu í lækningavörur sem eru að vekja heimsathygli. Margt annað væri hægt að nefna hér sem frumkvöðlar hafa töfrað fram samfélaginu til heilla. Stærri sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa mörg hver fjárfest í mjög fullkomnum landvinnslum þar sem fiskurinn er sífellt unnin meira og meira til að mæta þörfum neytenda á markaði.
Á sama tíma og þessar staðreyndir blasa við þá hefur útflutningur á óunnum fiski farið hratt vaxandi síðustu ár og tók stökk Covid árin. Samkvæmt upplýsingum frá hagstofunni voru tæplega 60 þúsund tonn flutt út óunnin í gámum árið 2020. Þar af um það bil 16 þúsund tonn af þorski. Þá er ótalin eldislaxinn, á árinu 2020 voru 23 þúsund tonn af honum flutt út meira og minna óunninn.
Viðskiptasambönd okkar íslendinga þegar kemur að því að selja fisk hafa fyrst og fremst legið í gegnum svokallaðan HoReCa markað. Þessi skammstöfun er notuð yfir Hótel, veitingahús og mötuneyti. Einhverra hluta vegna hafa tilraunir okkar til þess að komast inn á neytendamarkað ekki náð í gegn. Á sviði fullvinnslu eigum við gríðarlega mikil vaxtatækifæri.
Markaðsumhverfið eftir Covid er á margan hátt breytt. Það er merkjanleg tilfærsla í kauphegðun t.d. með netsölu og auknum vilja fólks til að kaupa matvæli rafrænt. En til þess að ná árangri á neytendamarkaði þarf að hefja samtal við neytendur og upplýsa þá um kosti íslenskra sjávarafurða. Sá fræjum og kveikja áhuga. Uppskeran þegar vel tekst til er margföldun á því verðmæti sem fæst fyrir hvert kíló úr sjó.
Lönd sem stunda að mestu útflutning á hráefni eru ekki þekkt fyrir að geta staðið undir mikilli velferð þegna sinna. Það að nýta auðlindir til fulls og virkja sköpunarkraft og nýsköpun til meiri verðmætasköpunar er grundvallar forsenda þess að við getum áfram haldið í þau lífsgæði sem hér hafa byggst upp á síðustu áratugum.