Marta María Winkel Jónasdóttir, alvaldur í Smartlandi, hefur farið mikinn í að segja forystufólki í íslensku þjóðlífi hvernig rétt sé að klæða sig upp við mismunandi tilefni. Staðan á markaðnum er krufin á vettvangi Spursmála.
Beint í Steinar Waage
Þar er Marta María gestur ásamt Jakobi Birgissyni, nýjum aðstoðarmanni dómsmálaráðherra. Eftir nokkra leiðsögn ákveður hann í miðjum þætti að ráðherra skuli ekið rakleitt í Steinar Waage að afloknum vinnufundir ríkisstjórnarinnar á Þingvöllum.
Það er ekki tíðindalaust af vettvangi Spursmála frekar en fyrri daginn og orðaskiptin um þessi mál má sjá í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
Afhjúpaði sig á tröppunum á Bessastöðum
„Bomsurnar hennar Ingu Sæland sjást ekki þarna undir borðinu.“
En þær sáust í myndatökunni fyrir utan Bessastaðastofu... Þar afhjúpaði hún sig. Þú fékkst fyrir ferðina fyrir þessa gagnrýni þína er það ekki? Fólk varð alveg brjálað.
„Já, já. Það sem er eiginlega verst við þetta er að eiginmaður minn og tengdamóðir tóku þetta svo nærri sér að það skyldi vera ráðist á mig fyrir að vera vond við Ingu Sæland. Það er enginn að vera vondur við Ingu Sæland. Ég er bara að vera góð við Ingu Sæland því þetta voru bara vinsamleg tilmæli um að þessi skóbúnaður henti ekki þarna. Þú mætir ekki í ökklabomsum þegar þú tekur við ráðherraembætti. Þú ert í spariskóm og ef þú ert slæmur í fótunum, það getur alveg ef manni er illt í fótunum þá er manni illt alstaðar. En það er alveg hægt að vera í huggulegum spariskóm, flatbotna sem eru ekki svona bomsur. Það er til. Það er til dæmis merki sem heitir Tamaris sem fæst í Hagkaup og Steinari Waage, sem er rosalega gott, þeir eru svona mjúkir í tána. Ég á sjálf svona skó....“
Tekur niður punkta fyrir ráðherrann
Ertu ekki að punkta þetta niður fyrir ráðherrann?
„Jú, jú, ég er að taka þetta allt,“ skýtur aðstoðarmaður ráðherra inn í.
„Þannig að Inga verður að taka mið af þessu og þú getur ekki verið í kjól sem nær niður að hnjám í 40 den sokkabuxum og þessum bomsum sem ná upp á ökkla,“ bætir Marta María við.
En þú skrifaðir engan pistil um það þegar Bjarkey Olsen mætti til dæmis á sinn síðasta ríkisráðsfund í þessu stutta pilsi og...
Óvanalegt á Bessastöðum
„Skrifaði ég ekki?“
Ja, skrifaðir þú pistil um það?
„Ohh, ég man það ekki,“ svarar Marta María.
Það verður það sama yfir alla að ganga.
„Hún var eiginlega ekki í neinu að neðan þannig að þú veist... Þetta var meira svona eins og belti.“
Fer með dómsmálaráðherra í Steinar Waage
„Ég mun hringja í ráðherra og segja: þegar þú ert búin á Þingvöllum þá kemur þú með mér í Steinar Waage og við ætlum að kaupa bomsur fyrir þig, flatbotna bomsur...“ áréttar Jakob.
„Nei, við erum að fara að kaupa svona skó fyrir þreyttar konur sem líta ekki út fyrir að þú sért í eigin kistulagningu,“ útskýrir Marta María.
Aðstoðarmanni ráðherra er greinilega ekkert mannlegt óviðkomandi.
„Já, já. Þetta bara skiptir máli. Það skiptir máli að sniðsaumar séu á réttum stöðum og það sem hefur verið svo einkennandi fyrir síðustu ríkisstjórn hvað fólk var í alltof þröngum jökkum og það kemur alveg fyrir á bestu bæjum að eitthvað þrengir um handleggi og svona. Og þá þarf jakkinn, það þarf að kaupa hann einu númeri stærri og það þarf bara að taka aðeins úr honum, þrengja hann aðeins hérna yfir og snikka þetta til og það er ekki einhver brjálaður kostnaður sem felst í því.“
Er þetta viðkvæmt mál?
Er viðkvæmt mál að þú sért að taka fyrir flíkur ráðamanna eins og Kristrúnar og nefna hvað toppurinn eða kjóllinn kostar.
„Það fer eftir því við hvern þú talar. Unga fólkinu finnst þetta bara sjálfsagt. Af því að allir vilja bara vita hvað allt kostar, fólk er að kaupa sér eitthvað á netinu og svona. En konur sem eru komnar yfir sjötugt þær bara, þeim finnst þetta vera svo mikill dónaskapur og þarna er bara kynslóðabil, kynslóðabil. Eldri kynslóðir, við búum í þannig samfélagi að eldri kynslóðir máttu aldrei tala um neitt. Það var allt þaggað niður. Ef einhver í fjölskyldunni gerði eitthvað, var of fullur á jólunum eða eitthvað þá var því bara sópað undir teppi og svo var bara látið eins og ekkert hefði í skorist. Og þetta fólk, sem er af þessari kynslóð, þessari þöggunarkynslóð, því finnst það vera svo mikill dónaskapur og ég virði það. En við ætlum frekar að gefa í frekar en hitt með það hvað hlutirnir kosta og hvaðan þeir koma,“ segir Marta María.
Og Jakob blandar sér í umræðuna:
„Ég tók eftir því til dæmis að Kristrún var í einhverjum glæsilegum fötum og þú skrifaðir um það og það bara seldist upp. Þessar verslanir hljóta að vera ánægðar.“
„Ótrúlega ánægðar. Halla Tómasdóttir var til dæmis í bleikum jakka sem fæst í Hjá Hrafnhildi og jakkinn seldist upp. Og það verður áhugavert fyrir ykkur sem hafið áhuga á viðskiptum að skoða ársreikninga hjá fyrirtækjum eins og Hjá Hrafnhildi og fleiri aðilum,“ svarar Marta María.
Fyrirtækin græða á tá og fingri
Klútarnir seldust upp hjá þeim.
„Já, já. Auðvitað hefur þetta áhrif og ég hef fengið svo miklu meira af jákvæðum skilaboðum. Takk fyrir þessa umfjöllun, þetta sparar mér svo mikinn tíma þegar ég er að kópera eitthvað flott sem ég sé á öðru fólki. Af því að við erum öll þannig. Við erum alltaf bara að apa upp eftir hvert öðru.“
En þessi umræða hófst svolítið þegar Björn Skúlason, eiginmaður forsetans mætti á brúnum, tiltölulega illa pússuðum skóm, í Élysée-höll í París og menn áttuðu sig á því strax að þarna var eitthvað slys sem hafði átt sér stað. Ertu nógu dugleg líka við að reikna út hvaðan jakkafötin og bindin koma hjá karlkyns ráðherrum.
Þvílíkt pússaðir skór
„Við þurfum kannski að fara að herða okkur þar. en ég sé að þetta hefur skilað árangri með brúnu skóna hans Björns. Vegna þess að þegar fálkaorðan var veitt núna 1. janúar þá var hann í svörtum, þvílíkt pússuðum skóm. Hann ætlaði ekki að láta hanka sig.“
Þannig að þetta er bara menntunarlegs eðlis og til uppfræðslu.
„Já, já. Inga Sæland. Ég veit ekki betur en að hún sé mjög þakklát fyrir það að henni sé bent á svona hluti eins og að ökklaskór passa ekki við hnésíða kjóla. Þetta er úti um allt, maður sér þetta í leikhúsinu, í kosningasjónvarpinu, hjá Gísla Marteini, alstaðar þar sem fólk kemur saman.“
Aðallega þar.
„Að það er bara alltof mikið um ökklaskó við hnésíða kjóla og það bara gengur ekki.“
Viðtalið við Mörtu Maríu og Jakob má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: