Enginn syngur eða yrkir um sjómannslífið lengur enda þjóðin uppteknari við aðra hluti og flest sem tengist sjómennsku er hluti af fortíðinni hjá fólki sem berst við einhverskonar kulnun og almennt tilgangsleysi tilverunnar. Þrátt fyrir það sitjum við uppi með sjávarútveginn, enda einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og hefur, þegar á allt er litið, líklega lagt hvað mest atvinnugreina til þess þjóðfélags sem við lifum í í dag. En þó að dagleg athygli sé lítil á sjávarútveginn er pólitíkin þess ákafari þegar kemur að málefnum hans.
Þegar Hanna Katrín Friðriksson tók við sem ráðherra sjávarútvegsmála í ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins sagði hún þetta um sjávarútveginn í viðtali við netmiðilinn Vísi: „Þetta eru grunnatvinnuvegir þjóðarinnar og þarna er verðmætasköpunin. Þannig ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni í nánu samstarfi við hagsmunaaðila bæði nær og fjær.“ Svo mörg voru þau orð.
Gáfumannaklúbbur í pópúlískum heimi
Óhætt er að segja að fulltrúar Viðreisnar hafi í gegnum tíðina stært sig af ákveðinni fagmennsku, að sumu leyti finnst manni þegar rætt er við Viðreisnarfólk að það telji sig vera svar skynseminnar við pópúlískum stjórnmálum. Pínulítið eins og þar sé á ferðinni gáfumannaklúbbur sem neyðst hafi til að gefa sig að stjórnmálum, öfugt við fólkið í Flokki fólksins sem sé bara í leit að störfum og bitlingum, nánast hvorki læst né skrifandi og það alls ekki á erlenda tungu.
Nú hefur Hanna Katrín sem atvinnumálaráðherra birt hálfgert „sprettfrumvarp“ um hækkun á hinni sérstöku gjaldtöku sjávarútvegsins sem kallast auðlindagjald. Þegar sagt er sprettfrumvarp er sótt í hliðstæðu sem kallast „spretthópur“ og hefur rutt sér til rúms í stjórnsýslunni undanfarin ár og á að fanga þau verðmætu augnablik þegar stjórnsýslan telur sig þurfa að flýta sér. Það á núna við um atvinnuvegaráðherra en frumvarpið um auðlindagjöld er kynnt með þeim formerkjum að það sem aðrir stjórnmálamenn hafi hugsað um í 40 ár hafi núverandi ríkisstjórn leyst á 94 dögum. Sprettfrumvarpið á síðan að fá flýtimeðferð í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. Það er nú öll fagmennskan.
Tilfinningarík fagmennska
Mesta athygli vekur þó hvernig frumvarpið er kynnt fyrir þjóðinni. Í stað fagmennsku er höfðað til tilfinninga eins og öll orðræða ráðherrans og annarra stjórnarliða ber merki um. Með því eigi að taka á „grátkór“ útgerðarinnar og kæfa viðbrögð hennar frá upphafi. Þannig fór um viljann til að leysa „verkefni í nánu samstarfi við hagsmunaaðila bæði nær og fjær.“ Í kjölfar frumvarpsins kom samstillt átak ýmissa áróðursmeistara, sem voru tengdir eða velviljaðir stjórninni. Óhætt er að segja að fjölmiðlar og samfélagsmiðlar hafi fyllst af fólki sem vill keyra málið í gegn.
Ráðherrann hefur eðli málsins samkvæmt nokkuð verið í fjölmiðlum og útgangspunktur hennar er að útgerðin geti vel borgað þetta, enda „mali hún gull“ og væri ella bara að fjárfesta í öðrum og óskyldum atvinnurekstri. Um leið sáir ráðherrann fræjum tortryggni byggt á því að allt gagnsæi skortir um eignarhald í sjávarútvegi eða þær fjárfestingar sem aðilar þar stunda í öðrum atvinnugreinum. Að þetta skuli koma frá manneskju sem hefur sjálf starfað í atvinnulífinu hlýtur að vekja athygli. Er þátttakan í miðvinstri stjórn að leika gáfumannafélag Viðreisnar svona?
Tími smjörklípumeistaranna
Það er ekki allt gáfulegt sem frá stjórnarliðum kemur. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, skrifar á Facebook-síðu sína: „Milljarðatugir munu því halda áfram að streyma í arðhirslur sægreifanna. Ekkert af þeim arði fer í að byggja upp byggðarlög sem þeir hafa skilið eftir í rúst með því að selja burt allan kvóta, sumir til að fjárfesta í steinsteypuhöllum og uppkaupum á fyrirtækjum fyrir sunnan. Og hversu mikill arður streymir nú þegar af landsbyggðinni ár hvert til að kaupa upp fyrirtæki á mölinni? Hvað á auðkýfingurinn í Vestmannaeyjum í mörgum fyrirtækjum uppi á landi? Með hverju halda menn að þau séu greidd?“ Pópúlisminn er allsráðandi hjá smjörklípumeistara Samfylkingarinnar, þetta snýst um persónur og leikendur, nú skal gert upp við „sægreifanna.“ Þessi haglýsing doktorsins stenst þó enga skoðun hafi menn undirstöðuþekkingu á sögu íslensks atvinnulífs.
Málamyndaskýrsla Svandísar
Allt síðasta kjörtímabil hélt þáverandi sjávarútvegsmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, úti miklu starfi undir heitinu Auðlindin okkar, þar ætlaði hún að undirbyggja breytingar á sjávarútveginum. Þrátt fyrir að hún hefði boðað mikið samráð varð það ekki og að endingu gaf matvælaráðuneyti Svandísar út stærstu málamyndaskýrslu sem hér hefur komið út, alls 464 blaðsíður, í ágúst 2023. Svandísi auðnaðist ekki að útskýra hvaða breytingar hún vildi gera og efast má um að hún hafi vitað það sjálf.
Í allri þessari umræðu hefur mjög skort á þekkingu á lagaumgjörð þeirri sem hefur mótað sjávarútveginn og sett hann þar sem hann er í dag. Sama á við um sögulega þróun og hagrænar forsendur. Sjaldnast er leitað til þeirra mörgu fræðimanna sem hafa kynnt sér íslenskan sjávarútveg í hörgul. Einn þeirra er Hrefna Karlsdóttir sem er með doktorsgráðu í hagsögu frá Gautaborgarháskóla og hefur lengi rannsakað þróun íslensks sjávarútvegs. Fyrir rúmu ári síðan var heft eftir henni í Morgunblaðinu: „Við búum í dag við kerfi sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu og skapar hvata til að hámarka þau verðmæti sem hægt er að gera úr takmarkaðri en endurnýjanlegri auðlind. Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum gengur vel að selja afurðir á erlendum mörkuðum þrátt fyrir mjög harða samkeppni, og það er brýnt að skilja að árangur greinarinnar er ekki eitthvað sem gerðist af sjálfu sér, heldur er hann afrakstur langtímaþróunar sem hófst á 9. áratugnum.“
Í dag er augljóst að margir skilja ekki það samkeppnisumhverfi sem íslenskur sjávarútvegur þarf að glíma við eða hvernig hann hefur þróast í gegnum tíðina. Það má vera að það sé hægt að hækka auðlindagjaldið sem fyrirtæki í útgerð greiða en það er fráleitt að láta eins og það hafi engar afleiðingar.