Fyrir stuttu var sagt frá þeim vinkonum Ngan, Dönu og Diönu sem allar fengu viðurkenningu fyrir námsárangur við útskrift Fjölbrautaskólans í Ármúla. Í frétt Morgunblaðsins sagði að þær töluðu allar reiprennandi íslensku en fyrir þremur árum töluðu þær varla stakt orð í tungumálinu. Ngan var dúx skólans og Díana semídúx. Ngan Kieu Tran er 19 ára gömul og flutti með móður sinni til Íslands frá Ho Chi Minh í Víetnam í júlí 2022. Diana Al Barouki og Dana Zaher El Deen eru báðar 18 ára gamlar og fluttu til Íslands frá borginni Sweida í Sýrlandi. Dana flutti til Íslands í apríl 2022 en Díana í nóvember sama ár.
Þarna eru augljóslega duglegar stúlkur á ferðinni og fjölmiðlar segja sögu þeirra af því að þær eru utanaðkomandi í íslensku samfélagi en eru augljóslega að standa sig vel. Það var reyndar vel í lagt að segja þær tala reiprennandi íslensku en íslenskan verður tæpast vandamál fyrir þær í framtíðinni. Það er ástæða til að gleðjast yfir þessum nýju Íslendingum og ein stúlkan sagði þrisvar framan í myndavélina að Ísland væri frábært land. Þetta eru góðir gestir en það má líka velta fyrir sér hvort að áhugi fjölmiðla á að segja þessa sögu sé af því að þeir vita að ekki eru allir sem hingað koma góðir gestir. Þvert á móti eru margir sem hingað koma til hinna mestu óþurfta og leggja mikið álag á réttarvörslukerfið og velferðarkerfið okkar. Sú saga verður ekki sögð með jafn persónulegum hætti og saga þeirra Ngan, Dönu og Diönu.
Ekki hlustað á viðvaranir
Staða í landamæramálum landsins er til mikillar umræðu þessa dagana eins og var rakið hér í pistli fyrir skömmu. Landamærin eru dálítið eins og þröskuldur heimilis okkar, við viljum hafa eitthvað með það að gera hverjum við bjóðum inn og hverjum ekki. Því miður eru mörg teikn á lofti um að hingað hafi borist margir gestir sem eru ekki eins indælir og þær Ngan, Dana og Diana. Í raun eru þær frásagnir sláandi og það er einnig undrunarefni að ekki var hlustað á viðvaranir þegar þær tóku að berast eins og kemur fram í viðtali við Gest Pálmason, markþjálfa og fyrrverandi lögreglumann, í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar en netmiðillinn Vísir gerði rækilega grein fyrir samtalinu undir fyrirsögninni: „Höfum fullkomlega misst stjórn á útlendingamálum.“ Þetta er sláandi fullyrðing en Gestur starfaði um árabil innan lögreglunnar og fékk meðal annars það verkefni að öðlast yfirsýn yfir þennan tiltekna málaflokk. Þegar hann er spurður af hverju allt fór úr skorðum nefnir hann kerfislægan vanda, álag, skort á fjármagni og fleira. „En í mínum huga er þetta fyrst og fremst skortur á leiðtogahæfni,“ bætir Gestur við. Einhverjir stjórnmálamenn ættu að taka það til sín.
Algerlega fyrirsjáanlegt
Það er athyglisvert að hlusta á Gest en hann segist eiga skýrslur og trúnaðargögn sem hann skrifaði fyrir tíu árum þar sem hann varaði við þróun mála. Gestur bætist nú í hóp þeirra sem gagnrýna yfirstjórn lögreglumála hart en Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, vandaði þeim sem fara fyrir löggæslumönnum ekki kveðjurnar eins og vikið hefur verið að hér í pistlum.
„Það sem er svo vont er að þetta var algjörlega fyrirsjáanlegt. Við hefðum auðveldlega getað séð það sem var að gerast í löndunum í kringum okkur, hvort sem það er skipulögð brotastarfsemi eða annað sem hefur farið úr böndunum. Ég á skýrslur sem ég skrifaði sjálfur fyrir 10 árum, þar sem ég var að spá fyrir um allt þetta sem nú er að gerast,“ segir Gestur.
Gestur bendir á að það er og hefur verið misnotkun í gangi á þessu kerfi og hlutverk lögreglunnar og yfirvalda sé að finna hverjir eru hérna í annarlegum tilgangi. Það sé ábyrgðarhlutur hjá stjórnvöldum að hafa dregið lappirnar, ekki síst af því að núna er ákveðin hætta á alvöru útlendingaandúð einmitt af því að margt er komið alveg úr böndunum. Það er rétt, lausatök og óvönduð vinnubrögð valda því að hingað kemur fólk sem á ekki að fá leyfi til að setjast að og spillir fyrir hinum, svo sem fólki eins og Ngan, Dönu og Diönu.
Albanía kemur í heimsókn
Haustið 2016 jókst verulega fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi, mikið drifið af Albaníufólki á þeim tíma bendir Gestur á. Fram að því höfðu verið að dúkka hérna upp 2-3 menn á ári, en svo varð sprenging sem kom í kjölfar mikils flótta fólks frá Miðjarðarhafinu yfir til Evrópu. „Mér var falið það verkefni að fara í samvinnu við Útlendingastofnun og búa til móttökumiðstöð fyrir fólk sem var að sækja um alþjóðlega vernd,“ segir Gestur. Betur hefði farið á því að stunda mun harðari stefnu og vísa mikið af þessu fólki strax úr landi.
Úlfar Lúðvíksson benti á þá stöðu sem hér er komin upp vegna glæpamanna frá Albaníu í Spursmála-viðtalinu. „Maður kíkir á samfélagsmiðlana […] þá sér maður að þar birtist mynd af dæmdum morðingja sem tók annan mann af lífi, það var bara aftaka með mjög sérstökum hætti, þar sem hann er að spóka sig um í Grundarfjarðarkirkju og svo á stíg við Kvíabryggju,“ útskýrir Úlfar sem er þar að vísa í hið svokallaða Rauðagerðismál þar sem Armando Beqirai var tekinn af lífi fyrir utan heimili sitt í febrúar 2021. Morðið bar með sér að það var skipulagt og á sínum tíma treystu fjölmiðlamenn sér ekki til að fjalla um málið undir nafni og viðkomandi virðist njóta furðu mikils frelsis þó hann afpláni dóm fyri morð. Morðið sýndi einnig að skipulögð glæpastarfsemi var búin að hreiðra um sig hér eins og Úlfar hefur í raun staðfest.
Morðingi Armando Beqirai er sagður njóta sérstakra réttinda í fangelsi enda nýtur hann verndar glæpaklíkunnar sem ræður furðu miklu á Íslandi í dag. Það er löngu tímabært að beina kastljósinu að þessu fólki þó að við gleðjumst yfir framgöngu þeirra Ngan, Dönu og Diönu.