Þorgerður Katrín mun vilja hafa puttana í málefnum fjármálaráðuneytisins á komandi kjörtímabili. Þetta er mat Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem segir hana hafa haft val um að verða forsætisráðherra.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála. Þar berst talið að stjórnarmyndun sem lauk með myndun meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins þann 21. desember síðastliðinn.
Þar var tilkynnt um það að dr. Daði Már Kristófersson, prófessor í auðllindahagfræði við Háskóla Ísland, yrði fjármála- og efnahagsráðherra í nýrri stjórn.
Daði er varaformaður Viðreisnar en vermdi þó aðeins heiðurssæti í kosningunum 30. nóvember. Hann var í 22. sæti lista flokksins í Reykjavík suður.
Vararáðherra?
Er hann vararáðherra eins og einhverjir segja eða aðstoðarráðherra?
„Ég hugsa að hún muni vilja hafa skoðun á því sem hann gerir og hann auðvitað hefur sínar skoðanir sem falla ekki allar að stefnu nýju ríkisstjórnarinnar en ég ætla að veðja á að þær skoðanir þurfi að lúta í lægra haldi,“ svarar Sigmundur Davíð í viðtalinu.
Það er ekki óþekkt að ráðherrar séu sóttir út fyrir þingflokka. Það var meðal annars gert í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013. Þá komu inn í hana þau Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dómso og kirkjumálaráðuneytinu sem varð dóms- og kirkjumálaráðherra og Gylfi Magnússon, dósent við HÍ, sem varð viðskiptaráðherra.
Stöldruðu stutt við
Hvorugt þeirra sat þó lengi í embætti. Þau komu inn í ríkisstjórn í byrjun árs 2009 og voru komin út úr stjórninni í september 2010.
Orðaskiptin um þetta mál í Spursmálum má sjá í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
Var valið Þorgerðar?
Þetta gekk mjög hratt, þú myndaðir stjórn 2013 þar sem þú varst ekki með stærsta flokkinn heldur þann næststærsta. Margir töldu út frá niðurstöðu kosninganna að Þorgerður Katrín hefði pálmann í höndunum og að hún yrði forsætisráðherra ef hún einfaldlega vildi það en það virðist aldrei hafa verið neinn ágreiningur um það í stjórninni hvernig þessu skyldi skipt?
Ánægð með utanríkismálin
„Nei, nei. Ég held að hún hefði getað farið fram á forsætisráðuneytið, ef ekki í þessu samstarfi þá kannski öðru. En sé bara sátt við að fara í utanríkisráðuneytið. Hún hefur mikinn áhuga á þeim. Hún fær fjármálaráðuneytið og skipar mann sem var varla á lista hjá Viðreisn í kosningabaráttunni. Sem segir manni að hún hafi væntanlega eitthvað um það að segja hvað hann gerir í því hlutverki.“
Er hann vararáðherra eins og einhverjir segja eða aðstoðarráðherra?
„Ég hugsa að hún muni vilja hafa skoðun á því sem hann gerir og hann auðvitað hefur sínar skoðanir sem falla ekki allar að stefnu nýju ríkisstjórnarinnar en ég ætla að veðja á að þær skoðanir þurfi að lúta í lægra haldi.“
Og þar ertu meðal annars að vísa í skoðanir hans til strandveiðanna og annað í þeim dúr?
„Já.“
Viðtalið við Sigmund Davíð má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan: