Páll Steingrímsson, skipstjóri, segir afar þungbært að þurfa að greiða nefskatt í Ríkisútvarpsins í ljósi þeirrar meðferðar sem hann segist hafa hlotið af hendi starfsmanna stofnunarinnar.
Neydd til að borga
„Við erum neydd til að borga til hennar. Ég get ekki hætt að borga þótt ég viti hvað þau gerðu mér. Börnin mín geta ekki hætt að borga þótt þau viti hvað þau gerðu okkar fjölskyldu,“ segir Páll í samtali á vettvangi Spursmála.
Í viðtalinu ræðir hann hið svokallaða byrlunarmál sem fjallað hefur verið um allt frá árinu 2021 þegar Páll veiktist hastarlega af völdum eitrunar sem hann varð fyrir. Á tímabili var ástand hans með því móti að dætur hans voru beðnar um að kveðja hann hinstu kveðju.
Sími skipstjórans afritaður
Vísar Páll þar til þess að þegar Páll lá milli heims og helju á Landspítalanum var síma hans komið í hendur starfsmanna RÚV og hann í kjölfarið afritaður. Fréttir upp úr einkaskilaboðum í símanum tóku að birtast í fréttum annarra miðla, Stundarinnar og Kjarnans, nokkrum vikum síðar.
Orðaskiptin um stöðu RÚV og þær tilfinningar sem Páll og fjölskylda hans bera til stofnunarinnar má sjá í spilaranum hér að ofan. Þá eru þau einnig rakin í textanum hér að neðan.
Telur rétt að höfða einkamál
En hver er ábyrgð RÚV ef síminn er sannarlega afritaður innan veggja þessarar opinberu stofnunar?
„Það er kannski eitthvað sem ég þyrfti að láta reyna á fyrir dómsmáli. Við sjáum, ég er ekki í ósvipaðri stöðu og Harry prins þegar The Sun neitaði að gefa upp með hvaða hætti þeir hefðu gert þetta og hvaða starfsmenn hefðu haft aðkomu að málinu en borguðu honum samt skaðabætur upp á 10 milljónir punda.“
Hann fór í mál við þá?
„Hann fór í mál við þá.“
Siðferðisleg skylda að láta reyna á málið
Hyggst þú leita réttar þíns hvað þetta varðar?
„Ég er nú hérna fyrir sunnan meðal annars til þess að hitta þennan hóp sem er í kringum mig og við erum meðal annars að fara yfir stöðuna. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn Stefán þá finnst mér það vera siðferðisleg skylda mín að fara í málið. Við getum hreinlega ekki sett fjölmiðlastéttina í þau spor að það sé ekki ákveðin lína sem þú mátt ekki fara yfir. Og ég ætla ekki, svo við höfum það á hreinu, að setja alla blaðamenn undir sama hatt...“
Bara næstum því...
„Hlutfalli góðra blaðamanna hefur fjölgað síðustu daga, því þau eru öll hætt.“
Á síðustu dögum.
„En mér finnst að, og mér finnst bara hreint út sagt, miðað við allt sem hefur komið frá Blaðamannafélaginu, og ákveðnum hópi Alþingismanna og þá er ég að meina Pírötum og Samfylkingunni sérstaklega, þá hljóta menn að taka það upp á Alþingi að það verði sett á laggirnar rannsóknarnefnd. Ef þetta hefðu verið Kjarninn og Stundin þá veit ég ekki hvort maður hefði verið að eyða orku í þetta eða tíma eða peningum. En þetta er ríkisfjölmiðill. Það er ríkisfjölmiðillinn sem er höfuðpaurinn í málinu og mér finnst það dálítið sérstakt þegar opinber stofnun, sem er í eigu okkar allra. Við erum neydd til að borga til hennar. Ég get ekki hætt að borga þótt ég viti hvað þau gerðu mér. Börnin mín geta ekki hætt að borga þótt þau viti hvað þau gerðu okkar fjölskyldu.“
Þið þurfið að borga sértækan nefskatt inn í þessa stofnun. Og sárnar ykkur það?
„Já mjög. Við vitum alveg hvað þau gerðu. Það er fullt af gögnum sem hafa ekkert komið fram í málinu. Það er einn starfsmaður RÚV búinn að senda minni fyrrverandi mikið magn af skilaboðum og hann hefur ekki stöðu í málinu.“
Búinn að eiga í samskiptum við hana?
„Já.“
Viðtalið við Pál Steingrímsson má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: