Hildur Björnsdóttir, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn virðist eiga fáa kosti í tilraun til að mynda nýjan meirihluta. Hún er til svars á vettvangi Spursmála þegar sendur er út aukaþáttur í ljósi tíðindanna af vettvangi borgarinnar.
Þátturinn var sýndur í beinu streymi hér á mbl.is fyrr í dag en upptaka af honum er öllum aðgengileg í spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube.
Tilraun sem rann út í sandinn
Um liðna helgi var tilraun gerð til þess að mynda nýjan meirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Flokks fólksins og Viðreisnar.
Þær hugmyndir runnu út í sandinn þegar ljóst varð að Flokkur fólksins hefur útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Hvaða meirihlutamynstur er þá í myndinni?
Hildur fer yfir stöðuna í Spursmálum í dag.
Áður en kemur að viðtalinu við hana mæta þeir á svæðið, álitsgjafarnir og reynsluboltarnir, Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum oddviti Framsóknar í borgarstjórn og núverandi aðstoðarmaður formanns Miðflokksins og Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi Þjóðmála. Þeir eru gjörkunnugir því völundarhúsi sem valdamenn í borginni reyna nú að feta í átt að nýjum meirihluta.
Fylgist nánar með gangi mála hér á mbl.is.