Hildur Björnsdóttir hefur fengið boð um að taka að sér embætti borgarstjóra í kjölfar þess að upp úr núverandi meirihlutasamstarfi slitnaði síðastliðinn föstudag.
Þetta upplýsir Hildur í viðtali í Spursmálum í dag.
Óæskilegt samstarf
Segir hún að þau boð hafi tengst hugmyndum um meirihlutasamstarf sem hún kallar „óæskilegt.“
Orðaskiptin um þetta má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan:
Til að hafa áhrif
Finnst þér eðlilegt að þú verðir borgarstjóri ef Sjálfstæðisflokkurinn kemur að meirihluta það sem eftir líður kjörtímabilinu?
„Ég er ekki í stjórnmálum til þess að leita eftir völdum og vegtyllum. Ég er auðvitað að leita að áhrifum og ég vil vinna að verkefnum og ég er búin að telja upp þessar breiðu línur og þessi stóru mál sem ég er reiðubúin að starfa með öðrum flokkum að. Það verður mitt helsta áherslumál að ná árangri.“
Hvar á forgangslistanum er borgarstjórastóllinn?
„Hann er ekki á forgangslistanum. Ég fer ekki inn í neinn þann meirihluta sem ætlar ekki að ná árangri með þessi mál sem ég hef talið upp. Og það er alveg búið að reyna að freista mín, skal ég segja þér, Stefán Einar, með þessum borgarstjórastól, í óæskilegum samstörfum sem ég fer ekki inn í?“
Hvernig samstarfi?
„Ég ætla bara að leyfa þér að geta þér til um það.“
Viðtalið vð Hildi Björnsdóttur er aðgengilegt í heild sinni í spilaranum hér að neðan: